Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 545. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1303  —  545. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um Íslenskar orkurannsóknir.

Frá iðnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Helga Bjarnason og Kristínu Haraldsdóttur frá iðnaðarráðuneyti, Þorkel Helgason frá Orkustofnun, Hannes G. Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins, Svein Hannesson frá Samtökum iðnaðarins, Júlíus Jónsson frá Hitaveitu Suðurnesja hf., Eirík Bogason frá Samorku, Friðrik Sophusson, Þórð Guðmundsson og Bjarna Bjarnason frá Landsvirkjun, Franz Árnason frá Norðurorku, Guðmund Þóroddsson frá Orkuveitu Reykjavíkur, Kristján Haraldsson frá Orkubúi Vestfjarða, Kristján Jónsson og Eirík Briem frá Rafmagnsveitum ríkisins, Ólaf Eggertsson frá Landssambandi raforkubænda og Þórð Skúlason og Jón Jónsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
     Þá bárust nefndinni umsagnir frá Selfossveitum, Rafmagnsveitum ríkisins, Hitaveitu Suðurnesja, Náttúrufræðistofnun Íslands, Rannsóknarráði Íslands, Byggðastofnun, Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna, Orkustofnun, Norðurorku, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Orkubúi Vestfjarða hf., Landsvirkjun, Reykjavíkurborg, Háskóla Íslands, Umhverfisstofnun, Alþýðusambandi Íslands, Skipulagsstofnun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Eyþingi.
    Með frumvarpinu er lagt til að rannsóknasvið Orkustofnunar verði gert að sérstakri ríkisstofnun sem heyri undir stjórn iðnaðarráðherra og eru gerðar samsvarandi breytingar á Orkustofnun með frumvarpi sem lagt var fram samhliða þessu. Aðskilnaður þessi þykir nauðsynlegur til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra sem gætu skapast við breytingar á starfsumhverfi orkufyrirtækja samkvæmt frumvarpi til raforkulaga.
    Í umfjöllun nefndarinnar kom fram að með frumvarpinu er leitast við að skapa almennan ramma fyrir stofnunina sem líkastan fyrirtækjarekstri og er ætlunin að með því fáist ákveðin reynsla á reksturinn. Stofnunin mun starfa á viðskiptalegum forsendum og er því mikilvægt að starfsskilyrði stofnunarinnar verði sem líkust starfsskilyrðum hlutafélaga og er í því skyni lagt til að skipuð verði fimm manna stjórn.
    Nefndin leggur til að gerðar verði breytingar á frumvarpinu varðandi skipun forstjóra, þ.e. að forstjóri sé ráðinn af stjórn stofnunarinnar en ekki af ráðherra og telur nefndin það til þess fallið að gera stofnunina sjálfstæðari og samrýmast betur starfsskilyrðum hlutafélaga.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:

          1.      1. málsl. 4. gr. orðist svo: Forstjóri Íslenskra orkurannsókna er ráðinn af stjórn stofnunarinnar.
          2.      Önnur málsgrein ákvæðis til bráðabirgða falli brott.

Alþingi, 10. mars 2003.



Hjálmar Árnason,


form., frsm.


Guðjón Guðmundsson.


Bryndís Hlöðversdóttir.



Pétur H. Blöndal.


Svanfríður Jónasdóttir.


Árni R. Árnason.



Árni Steinar Jóhannsson,


með fyrirvara.


Kjartan Ólafsson.


Ísólfur Gylfi Pálmason.